Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Lestrarskipulag og markmið


Í Garðabæ er unnið eftir fyrirkomulagi sem nefnist „Brúum bilið“ sem er samstarfsverkefni milli leik- og grunnskóla. Leikskólar miðla upplýsingum til skóla meðal annars úr Hljóm2. 

Lestrarkennslan byggir fyrst og fremst á hljóðaaðferð sem reynist flestum nemendum vel. Einnig eru góðar hugmyndir úr öðrum kennsluaðferðum nýttar. Nemendum er mætt þar sem þeir eru staddir (einstaklingsmiðað nám), unnið er með „Markvissa málörvun“, tengsl stafs og hljóðs, leshraða og lesskilning í yngri bekkjum. Fylgst er með lestrarnákvæmni sem eykst samhliða öryggi í stafaþekkingu. Snemmtæk íhlutun strax á fyrstu skólaárunum kemur mögulega í veg fyrir lestrarerfiðleika seinna meir. Bekkjarkennarar bera ábyrgð á því að nemendur fá lesefni við hæfi. Of erfitt lesefni getur torveldað lestrarnám. Þumalputtareglan er að ef barn les u.þ.b. sex orð röng á einni blaðsíðu er bókin of erfið. Barnið þarf þá að fá léttari lestrarbók til þess að æfa raddlestur.

Unnið er út frá hugmyndafræði (Walpole og McKenna, 2007) um þriggja þrepa kennsluskipulag. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þrep 1.  Allir nemendur vinna í hefðbundnu bekkjarskipulagi og að sömu verkefnum undir stjórn bekkjarkennara. Nemendur vinna verkefnin ýmist einir eða í hópum. 

Þrep 2. Kennt er í færnimiðuðum hópum undir stjórn bekkjarkennara. Í einum hópnum er yfirferð hægari og tíð upprifjun. Í öðrum hópi takast nemendur örar á við ný viðfangsefni. Samsetning nemendahópa tekur breytingum eftir framförum nemenda.

Þrep 3. Nemendur sem ekki taka framförum á 1. og 2. þrepi þurfa hnitmiðaða námsáætlun og námsefni við hæfi. Kennsla þeirra getur farið fram innan bekkjar eða utan í fámennum hópi og/eða einstaklingslega. 

Lestrarátak – hugmyndir

Markmið með lestrarátaki er að nemendur auki lesfimi og lesskilning. Auk þess er mikilvægt markmið að auka áhuga nemenda á yndislestri. Þegar lestrarátak stendur yfir er mikil samvinna við bókasafn skólans. Starfsmenn bókasafns eru kennurum og nemendum innan handar við val á bókum eða koma með einum eða öðrum hætti að framkvæmd eða úrvinnslu átaksins, meðal annars með afhendingu viðurkenninga fyrir góðan árangur.

Súlurit

Hver nemandi setur sér markmið út frá eigin lestrargetu og keppir þannig við sjálfan sig. Markmiðið setur nemandinn í samráði við bekkjarkennara sem fer eftir því hve margar blaðsíður hann treystir sér að lesa á tímabilinu sem átakið stendur yfir. Lengd átaksins getur verið frá einni viku til þriggja vikna. Nemandi getur notað lestrarhefti/renninga til hliðsjónar við markmiðasetninguna. Átak sem þetta getur annaðhvort verið einstaklingsátak eða sem keppni innan bekkjar eða árgangs. 

Fyrirkomulag:
Hver nemandi áætlar blaðsíðufjöldann sem hann hyggst lesa á tímabilinu og lætur umsjónarkennara vita.                Nemandinn hefur til hliðsjónar fjölda þeirra blaðsíðna sem hann hefur lesið að undanförnu.
Nemandinn velur sér bók við hæfi getu hans.
Þegar nemandi lýkur við bók er hún skráð í súlurit sem sett er upp í kennslustofunni eða kennslugangi. Þegar          nemandi hefur lokið lestri á bók mælir nemandi renning þar sem 10 blaðsíður samsvara 1 cm í súlu. Ef bók er          til að mynda 150 blaðsíður klippir nemandinn út 15 cm súlu og skrifar á hana nafn bókar og blaðsíðu-                      fjölda. Súlunni er svo komið fyrir á súluritinu við nafn viðkomandi nemanda. Útfærsla súluritsins getur verið            mismunandi. 
Í skólanum er gert ráð fyrir að nemendur segi munnlega eða skriflega frá því sem þau lesa.
Í lok átaksins er farið yfir hvort nemendur hafi náð markmiðum sínum.

Tilvalið er nýta niðurstöður til úrvinnslu í stærðfræði eða í tölvukennslu þar sem hægt er að reikna meðalfjölda lesinna blaðsíðna hjá árgangi, nemenda, bekk eða fyrir tímabil.

Bókaormar

Hver nemandi setur sér markmið út frá eigin lestrargetu og keppir þannig við sjálfan sig. Markmiðið setur nemandinn í samráði við bekkjarkennara sem fer eftir því hve margar blaðsiður hann treystir sér að lesa á tímabilinu sem átakið stendur yfir. Lengd átaksins getur verið frá einni viku til þriggja vikna. Nemandi getur notað lestrarhefti/renninga til hliðsjónar við markmiðasetninguna. Átak sem þetta virkar vel sem keppni á milli bekkja innan árgangs eða milli árganga. 

Fyrirkomulag:
Hver nemandi áætlar blaðsíðufjöldann sem hann hyggst lesa á tímabilinu og lætur umsjónarkennara vita.                Nemandinn hefur til hliðsjónar fjölda þeirra blaðsíðna sem hann hefur lesið að undanförnu.
Nemandinn velur sér bók við hæfi getu hans.
Kennari býr til bókaorm á http://bokaormar.khi.is/  og gefur honum nafn sem nemendur hafa valið.
Þegar nemandi hefur lokið lestri bókar skráir hann hjá sér blaðsíðufjölda ásamt því að skrifa stutta umsögn              um bókina, um hvað bókin fjallar og hvernig honum líkar hún. Kennari eða nemandi skráir síðan                                upplýsingarnar inn á vefinn. Þar geta aðrir nemendur fengið hugmyndir um hvað aðrir nemendur eru að lesa          og séð hve margar blaðsíður hafa verið lesnar.

Lestrarveggur

Umsjónarkennarar árgangsins ákveða lengd námskeiðsins. Kennari lætur nemendur fá lestrarmiða þar sem foreldrar kvitta að lestri loknum. Nemandinn velur sér bók við hæfi og skráir hana á lestrarmiðann. Að loknum lestri bókarinnar segir nemandinn frá aðalatriðum sögunnar og skráir nafn sitt og heiti bókar á form. Hann skreytir formið sem síðan er fest upp á vegg. Meðan á átakinu stendur eiga nemendur að reyna að byggja eins stórann lestrarvegg og kostur er.

Tölvur kennsluforrit/Ipad smáforrit 

Aðalnámskrá grunnskóla gerir ráð fyrir að Internetið verði notað í kennslu í auknum mæli, enda eru tölvur og tækni partur af lífinu í dag. Tölvur eru ekki einungis tæki til að afla þekkingar og færni á ýmsum sviðum, heldur einnig til mótunar og sköpunar. Mikilvægt er að skólar móti ákveðna stefnu um notkun tölva og netsins í skólanámskrá í samræmi við aðalnámskrá.
Löngu er viðurkennt að tölvur í skólastarfi er eitt af þeim kennslutækjum sem þykja sjálfsögð við alla kennsluna. Tölvan býður upp á óteljandi möguleika sem kennslutæki og ber okkur að nýta þá vel. Mikill fjöldi kennsluforrita er til á netinu og hefur Námsgagnastofnun gefið út skrá þar sem kennsluforrit eru flokkuð eftir vélbúnaði, skólastigi og námsgreinum.

Spjaldtölvur eru verkfæri í skapandi skólastarfi. Þær geta veitt aðgang að frekara lestrarefni, bjóða upp á fjölbreyttari úrvinnslu á námsefninu ásamt því að auka lestraráhuga nemenda. 
Spjaldtölvur er hægt að nýta sem einstaklingstæki í lestri en ekki eingöngu sem leiktæki, afþreyingu eða til æfinga á ákveðnu námsefni.  

Stóra upplestrarkeppnin

Nemendur í 7. bekk taka þátt í Stóru upplestrarkeppninni sem haldin er ár hvert. Hún hefst formlega á degi íslenskra tungu. Allir nemendur taka þátt í ræktunarhlutanum og æfa upplestur á texta og ljóðum. Á lokahátíð skólans eru fulltrúar valdir til þess að taka þátt í keppni milli skóla. 

Til baka

 

English
Hafðu samband