Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Lestrarkennsluaðferðir

Það er enginn ein kennsluaðferð sem hentar öllum nemendum við að læra að lesa. Kennarar þurfa að vera vel að sér í hinum mismunandi kennsluaðferðum og byggja kennsluskipulag og val kennsluaðferða á frammistöðu þeirra í lestri. Markmið lesturs er að skilja textann sem lesinn er. Það krefst þess að nemendur hafi góðan orðaforða og geti fylgst jafnóðum með því sem þeir lesa og geti tengt við fyrri reynslu og þekkingu til að skilja og vinna úr því.
 

Hljóðaaðferðin (sem lestrarkennsla Flataskóla byggir á)

Grundvallaratriði hljóðaaðferðarinnar er að nemendur skilji að bókstafirnir tákna hljóð orðanna í talmálinu. Helsti kostur aðferðarinnar er að nemendur læra skilvirka tækni til að lesa stöðugt ný og ný orð sem koma fyrir í texta. Durkin (1978-1979) skilgreinir hljóðaaðferðina sem ,,hverja þá aðgerð sem kennari beitir til að kenna nemendum að umskrá orð“. Þetta getur falist í eftirfarandi aðferðum:
Samtengjandi og sundurgreinandi aðferð. Nemendur læra heiti bókstafanna, hvaða hljóð þeir eiga og hvernig          á að tengja hljóð þeirra saman í orð. Nemendur geta fljótlega farið að lesa stutt orð og einfalda texta sem                innihalda þá stafi sem þeir eru búnir að læra. Nemandinn segir hljóð stafanna í orðunum með því að ,,hljóða          sig gegnum orðin“. Þetta kallast að umskrá orðið, en það felst í því að nemandinn verður að geta aðgreint                (sundurgreint) öll hljóðin í orðinu til þess að greina hljóm orðsins og heyrt hvaða orð hann er að lesa. (Dæmi:          sólin s-ó-l-i-n (sundurgreining) = sólin (samtenging). Lögð er áhersla á að lesa stutta, einfalda, merkingarbæra          texta sem stigþyngjast eftir því sem nemendur þjálfast í lestrinum. Þannig verða orðin smám saman erfiðari í          umskráningu og innihald textans stöðugt flóknara og sífellt reynir meira á lesskilning. 
Sundurgreinandi og samtengjandi aðferð. Unnið með tengsl bókstafa og hljóða gegnum ritun. Nemandinn              lærir að skrá orð með bókstöfum og skynjar um leið að orðin hafa hljóð sem hægt er að tákna með                            bókstöfum (sundurgreining). Nemandinn les orðin sem hann skrifar (samtenging). Oft er byrjað á að vinna              með orð sem nemandinn þekkir og unnið með orðalista sem hafa svipað stafamynstur eða skrifuð saga með          aðstoð orðkorta og kennara.
Greining orðhluta. Þetta felst í því að finna orð sem hafa sama stafamynstur (innihalda sömu bókstafi) og                læra utan að hvernig þetta stafamynstur hljómar og geta sagt það án þess að hika þegar það birtist í texta,              sbr. hús, hús (-ið), hús (-in), hús (-bíll), hús (-þak. Ehri (2005) telur að þessi aðferð gagnist ekki til lengdar,                   nema að nemandinn hafi þekkingu á tengslum bókstafa og hljóða (Steinunn Torfadóttir, Lesvefurinn).
 

PALS (Pör Að Læra Saman) 

Peer assistand learning strategies (PALS) sem hlotið hefur þýðinguna Pör að læra saman á íslensku er afar vel          rannsökuð og árangursrík kennsluaðferð til að þjálfa lesfimi og lesskilningsaðferðir í blönduðum                                bekkjardeildum.  
  • Vinnuferlið - Umsjónarkennari styðst við niðurstöður úr lesfimiprófum til að para nemendur, tvo og tvo                    saman. 
Kennari velur síðan lesefni af hæfilegri þyngd og miðar þyngdarstigið ætíð við slakari lesandann og kennir                þeim að lesa samkvæmt ákveðnum reglum. 
Nemendur æfa sig í að beita lesskilningsaðferðum með markvissum hætti, þ.e. að veita aðalatriðum athygli,            draga þau saman og spá fyrir um það sem kemur næst í sögunni (Lesvefurinn).
 

Leiðsagnarlestur (e. guided reading)

Leiðsagnarlestur er formföst lestraraðferð sem er aðlöguð að nemendum í litlum hópum þar sem kennari er virkur leiðbeinandi. Þegar unnið er með leiðsagnarlestur vinnur kennarinn með litlum hópi nemenda sem er kominn álíka langt í lestrarnáminu.
 
Leiðsagnarlestur:
Þroskar jákvætt hugarfar til lesturs með því að hvetja nemendur til umræðna.
Hjálpar kennara að móta lestrarvenjur nemenda.
Gefur kennara möguleika á því að stjórna og kenna lestur.
Gefur kennara tækifæri á að styðja við hvern nemanda eftir þörfum.
Styrkir gagnrýna hugsun nemenda við lestur á ólíkum texta

Gagnvirkur lestur (e. reciprocal teaching)

Gagnvirkur lestur felur í sér kennslu fjögurra þátta sem oftast fer fram í hópakennslu. Nemendum
er kennt:
að taka saman meginatriði efnisins.
að spyrja spurninga um hugmyndir og efni textans.
að leita skýringa þegar skilning brestur eða eitthvað er óljóst.
að spá fyrir um framhald texta.
 
Nemendur læra að taka saman meginatriði til að greina mikilvægustu atriði textans. Einnig að spyrja spurninga um efni textans á mismunandi hátt. Tilgangur þess að spyrja spurninga er að athuga hvort lesandi hafi skilið efnið og fest í minni það sem mikilvægt er að muna úr því. Að útskýra krefur nemendur um að taka eftir orðum eða hugtökum sem þeir skilja ekki og leita skýringa. Með því að spá fyrir rifja nemendur upp það sem þeir vita fyrir um efnið og setja fram tilgátu um hvað gæti gerst næst. Síðan lesa þeir áfram til að sannreyna, afsanna eða endurskoða tilgátuna. Þessir þættir auka skilning og gefa lesara tækifæri til að fylgjast með skilningi sínum sem er hluti af góðri námsvitund. Nemendur læra að nálgast lestur á virkan og skipulagðan hátt og læra námshegðun sem hjálpar þeim að verða sjálfstæðari í lestri sínum og færari um að fást við stöðugt flóknara lesefni. (Úr: „Lesið til skilnings“, kennarahandbók í gagnvirkum lestri eftir Önnu Guðmundsdóttur, útg. Námsgagnastofnun, 2007).
 

Hugtakakort

Í huganum búum við sífellt til kort, flokkum upplýsingar, þekkingu og röðun. Við getum með lítilli fyrirhöfn kallað kort fram úr huganum í orðum eða á myndrænan hátt. Hugtakakort má nýta í námi á árangursríkan hátt, meðal annars til þess auka lesskilning. Hugtakakort eða hugtakagreining er talsvert notuð í verkefninu „Orð af orði“ með góðum árangri og má finna þar fjölmargar hugmyndir um hvernig mætti nýta þau. Tilvalið er að nýta tölvutæknina við gerð hugarkorta og fjölmörg forrit hægt að nýta til þess.
 

Aðrar aðferðir

Fjölbreyttar aðferðir í lestrarkennslu: Eftirfarandi aðferðum er beitt eftir því hvar nemendur eru staddir í lestri:
Raddlestur. Nemandi les upphátt.
Hljóðlestur: Nemandi les í hljóði.
Skiptilestur. Kennari og nemandi lesa til skiptis.
Paralestur. Tveir nemendur lesa til skiptis.
Endurtekinn lestur. Sami texti lesinn aftur.
Kórlestur. Hópur nemenda les texta upphátt saman.
Yndislestur. Nemandi les bók sem hann velur sjálfur, sér til yndisauka og ánægju.
 

Til baka

English
Hafðu samband