Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Kennsluaðferðir

Áhersla er lögð á fjölbreyttar kennsluaðferðir og vinnubrögð í skólastarfinu. Aðferðirnar eru valdar út frá viðfangsefninu, markmiði þess og aldri, þroska og getu nemenda. Helstu kennsluaðferðir sem notaðar eru í Flataskóla eru eftirfarandi:

Útlistunarkennsla: Í útlistunarkennslu er kennarinn í hefðbundnu hlutverki fræðara sem miðlar þekkingu, fræðir, útskýrir og útlistar. Dæmi um útlistunarkennslu eru fyrirlestrar, sýnikennsla, skoðunarferðir, fræðslumyndir, hlustunarefni og sýningar. Markmið útlistunarkennslu er einkum að vekja áhuga, útskýra og vekja til umhugsunar. 

Þulunám og þjálfunaræfingar:  Þær kennsluaðferðir sem falla í þennan flokk miða að því að kanna þekkingu nemenda eða festa hana í minni. Þar má nefna endurtekningaræfingar, skriflegar æfingar, vinnubókar-kennslu, töflukennslu, þjálfunarforrit, kennslubókarkennslu, yfirheyrslu og þulunám. Markmiðið er að þjálfa leikni, kanna þekkingu nemenda og festa hana í minni. 

Verklegar æfingar:  Verklegar æfingar eru einkum notaðar í list- og verkgreinum. Í verklegum æfingum æfir nemandinn tiltekin vinnubrögð. Markmið þeirra er að þjálfa vinnubrögð og efla leikni á ýmsum sviðum. Verklegar æfingar byggjast öðru fremur á verklegum viðfangsefnum og þjálfun svo sem í skrift, íþróttum, heimilisfræði og mynd- og handmenntagreinum.

Umræðu- og spurnaraðferðir:  Kennari beitir spurningum í því skyni að skapa umræður til að efla skilning nemenda á viðfangsefninu, laða fram ólíkar hugmyndir og rökstyðja mál sitt. Dæmi um umræðu- og spurnaraðferðir eru samræður, þankahríð (hugstormun), umræðuhópar og málfundir. Formlegir bekkjarfundir eru algengt umræðufyrirkomulag í skólanum. Markmið aðferðarinnar er meðal annars að efla rökhugsun, kenna nemendum að tjá sig, rökræða og taka tillit til skoðana annarra.

Innlifun og tjáning:  Aðferðir sem hvetja nemendur til að sjá eitthvað fyrir sér í huganum, lifa sig inn í mismunandi aðstæður og tjá sig á skapandi hátt. Nemendur fást við ýmis tjáningarform, t.d. leikræn og myndræn, ritun, tónlist, söng og dans. Markmiðið er að virkja nemendur, vekja þá til umhugsunar og efla innsæi þeirra og skapandi hugsun.

Þrautalausnir:  Þrautalausnir þjálfa rökhugsun, ályktunarhæfni og innsæi.  Með því að takast á við þrautir eða gátur læra nemendur að glíma við viðfangsefni í víðu samhengi og leita ólíkra leiða.  Dæmi um þrautalausnir eru rökþrautir, þrautalausnaforrit, hlutverkaleikir og hermileikir. Markmiðið er að þjálfa rökhugsun, ályktunarhæfni og innsæi nemenda.

Leitaraðferðir:  Með leitaraðferðum er líkt eftir vinnubrögðum vísindamanna.  Dæmi um leitaraðferðir eru ýmsar kannanir, vettvangsathuganir, viðtöl og efnis- og heimildakannanir. Í Flataskóla er stuðst við tilraunir, efnis- og heimildakönnun, viðtöl og vettvangsathuganir. Meginmarkmiðið er að virkja nemendur, kynna þeim vísindaleg vinnubrögð og þjálfa þá í að afla upplýsinga.

Hópvinna:  Hópvinna er notuð jöfnum höndum með öðrum kennsluaðferðum. Nemendur læra í samvinnu að afmarka viðfangsefni og koma sér saman um verkaskiptingu. Í hópvinnu er markmiðið að þjálfa nemendur í samvinnu.  Nemendum er skipt í hópa og leyft að velja sér viðfangsefni eða þeim er falið ákveðið viðfangsefni í tengslum við námsefnið sem er til umfjöllunar hverju sinni. Dæmi um hópvinnuaðferð er samvinnunám sem er nánar lýst hér á eftir.

Samvinnunám:  Eitt af aðalmarkmiðum skólastarfsins er að auka félagsþroska nemenda, efla færni þeirra í samskiptum og samvinnu við aðra. Nauðsynlegt er að skapa nemendum tækifæri til samvinnu til að auka félagslega færni þeirra. Áhersla er lögð á mikilvægi hvers einstaklings innan hópsins. Námsverkefnin eru skipulögð með það fyrir augum að nemendur séu háðir framlagi hvers annars þannig að ekki verði komist að niðurstöðu nema hver og einn leggi fram sinn skerf.  Einnig er lögð rík áhersla á að hópurinn læri sjálfur að meta starf sitt og árangur af því, bæði námsárangur og félagslegan árangur.

Sjálfstæð skapandi vinnubrögð:  Með sjálfstæðum skapandi vinnubrögðum fást nemendur við uppfinningar og hönnun. Nemendur þurfa að setja sig í spor annarra og líkja sem nákvæmast eftir raunverulegri starfsemi. Þeir vinna sjálfstætt, ýmist einir eða í hóp, að skapandi verkefnum sem þeir taka verulegan þátt í að velja, móta og þróa. Í viðfangsefninu glíma nemendur við uppfinningar og hönnun.  Dæmi um sjálfstæð skapandi vinnubrögð er þemanám og söguaðferðin en henni er lýst nánar hér á eftir. Markmiðið er að efla frumkvæði, sjálfstæð vinnu-brögð og frjóa og skapandi hugsun. 

Söguaðferðin:  Söguaðferðin er kennsluaðferð sem aðallega er notuð í skólanum við kennslu í samfélagsfræði. Lykilmarkmið söguaðferðarinnar er að opna augu nemenda fyrir lífinu í kringum sig og lífsbaráttunni, efla sjálfstæði í vinnubrögðum, hvetja til fróðleiksleitar og efla tengsl umhverfis og skóla. Styrkur aðferðarinnar er að gera efni á bók raunverulegt með raunverulegum verkefnum. Í söguaðferðinni er lögð áhersla á að virkja þekkingu og reynslu nemenda og að þeir byggi á henni. Lögð er áhersla á að nemendur sjái tilgang í eigin verkum, hafi áhuga á og læri að bera virðingu fyrir verkum sínum og annarra. Nemendur taka virkan þátt í umræðum og skoðanaskiptum og leysa sameiginlega úr vandamálum. Áhersla er lögð á að ímyndunarafl, vitsmunir og sköpunargleði fái að njóta sín. Kennari hefur svigrúm til að laga viðfangsefnið að þörfum sem flestra nemenda með mismunandi getu. Loks er lögð áhersla á að nemendur tengi saman eigin þekkingu og reynslu við þá þekkingu sem þeir afla sér með söguaðferðinni. 

Lestrarkennsla – hljóðaaðferð:  Undanfari lestarnáms er þjálfun hljóðkerfisvitundar og er sú aðferð notuð við byrjendakennslu í lestri í Flataskóla. Hljóðaaðferðin felst í því að kenna nemendum að umskrá tákn (bókstaf) í hljóð og tengja þau síðan saman í orð. Stuðst við bókina Markviss málörvun sem byggir á þjálfun hljóðkerfis-vitundar. 

 Til baka 

English
Hafðu samband