Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Lýðræði og mannréttindi

Gagnrýnin hugsun og ígrundun um grunngildi samfélagsins eru hornsteinn lýðræðis- og mannréttindamenntunar sem skólum landsins er ætlað að rækta skv. aðalnámskrá grunnskóla frá 2011. Virðing fyrir mannréttindum, viðhorf, gildismat og siðferði eru ríkir þættir í lýðræðismenntun. Skólar þurfa að mennta börn til að búa í lýðræðisþjóðfélagi og temja sér starfshætti sem byggja á lýðræði og mannréttindum í öllu skólastarfi. Skólasamfélagið allt þarf að finna til samábyrgðar, meðvitundar og virkni til að svo megi verða. 

Í Flataskóla er markvisst unnið að því að fá einstaklinga og nemendahópa til að taka afstöðu til siðferðilegra álitamála. Hver einstaklingur hefur möguleika á að taka þátt í mótun skólastarfsins með gagnrýninni og opinni samræðu. Bekkjarfundir eru haldnir reglulega hjá öllum árgöngum og eru m.a. vettvangur gagnrýninnar samræðu. Skólaþing eru haldin með árgöngum og skólastjórnendum. Hver árgangur situr saman skólaþing tvisvar sinnum á skólaárinu, einu sinni á hvorri önn. Markmið skólaþinganna er að þjálfa nemendur í að ræða ýmis mál, að þeir læri að koma skoðunum sínum á framfæri og að virða skoðanir annarra.

Flataskóli er þátttakandi í verkefninu Réttindaskólar sem er alþjóðlegt vottunarverkefni þar sem Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er lagður til grundvallar öllu skólastarfi. Markmiðið er að byggja upp lýðræðislegt námsumhverfi, auka þekkingu á mannréttindum og stuðla að gagnkvæmri virðingu innan skólasamfélagsins. Með verkefninu er skapaður rammi utan um þau markmið sem koma fram í aðalnámskrá grunnskóla, grunnskólalögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, jafnrétti og lýðræði.  Í tengslum við það starfar réttinda¬ráð sem skipað er fulltrúum nemenda, foreldra og starfsmanna.

Nemendur skólans taka þátt í mati á skólastarfinu með árlegum nemendakönnunum. Í skólastarfinu er lögð áhersla á þjálfun lýðræðislegra vinnubragða, bæði í almennu námi og í félagsstörfum. Fulltrúar allra árganga sitja í nemendafélagi skólans, umhverfisráði og réttindaráði. Reynt er að höfða til áhuga nemenda og vilja þeirra til þess að taka virkan þátt í skólastarfinu og samfélaginu á jákvæðan hátt.  

Til baka  

English
Hafðu samband