Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Læsi

Í Flataskóla er lögð rík áhersla á þjálfun í lestri, lesfimi og lesskilningi alla skólagönguna enda getur lestrarkunnátta skipt sköpum fyrir framtíð barna. Stuðningur foreldra við lestrarnám barna sinna ræður miklu um árangurinn. Þar vegur þyngst heimalestur, lestrarhvetjandi umhverfi og mikil málræn samskipti heima fyrir.  Börnin læra að lesa og lesa til að læra. Nemendur í öllum árgöngum Flataskóla æfa lestur miðað við getu og þroska. Sérstök lestrarstefna í Flataskóla miðast við hvern aldurshóp þar sem mismunandi aðferðum er beitt í lestrar­kennslunni eftir aldri og þroska barna. 

Læsi í víðum skilningi 

Með læsi í víðum skilningi er annars vegar átt við tæknina sem felst í því að kunna að lesa og skrifa texta, þ.m.t. að nýta sér þá upplýsingatækni sem völ er á í þjóðfélaginu, og hins vegar hina yfirfærðu merkingu læsis að geta lesið í umhverfið og félagslegar aðstæður af ólíkum toga. Átt er við læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru til þess að börn læri að byggja sig upp andlega og líkamlega, geti bjargað sér í samfélaginu og unnið með öðrum. Þannig skal stefnt að því að nemendur öðlist hæfni til að skynja og skilja umhverfi sitt á gagnrýninn hátt og taka þátt í að móta það.

Lestur, ritun og tjáning er í hávegum höfð í Flataskóla. Nemendur eru þjálfaðir í að afla upplýsinga, greina þær og túlka og loks að miðla þeim áfram. Nemendur læra hugtök og notkun þeirra í réttu samhengi. Nemendur í 4. og 7. bekk taka árlega þátt í litlu og stóru upplestrarkeppninni. Hvatt er til yndislestrar nemenda á öllum stigum skólans.

Til baka 
English
Hafðu samband