Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Heilbrigði og velferð

Skólar þurfa að leggja grunn að líkamlegri, andlegri og félagslegri velferð nemenda til lífstíðar. Umhverfi skóla þarf að vera heilsueflandi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði hvers og eins. Nemendur þurfa markvisst hreyfiuppeldi þar sem lögð er áhersla á fræðslu, að efla hreyfifærni og hvetja nemendur almennt til hreyfingar. Mennta þarf nemendur og styðja þá þannig að þeir geti tekið upplýstar og ábyrgar ákvarðanir í tengslum við eigið heilbrigði. Allir nemendur þurfa að fá tækifæri til að njóta styrkleika sinna. Með skýrum markmiðum skóla um líkamlegt, andlegt og félagslegt heilbrigði nemenda er stuðlað að jákvæðum skólabrag, bættum námsárangri og vellíðan nemenda.

Flataskóli er þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi grunnskólar. Í verkefninu felst að efla getu barna og ungmenna til að takast á við verkefnin sem bíða þeirra í lífinu og stuðla að jákvæðum breytingum í samfélaginu. Í heilsueflandi skóla er leitast við að skapa umhverfi þar sem nemendur í samstarfi við kennara og aðra öðlast trú á að ná árangri í lífinu. Stuðlað er að jákvæðu andrúmslofti sem elur á góðum samskiptum og gagnrýnni umræðu um gildi og hugsjónir. 

Í skólanum er góð aðstaða til íþróttaiðkunar og áhersla er lögð á hreyfingu hjá öllum nemendum skólans. Þannig er unnið að því að efla og auka hreyfingu barna í Flataskóla. Rannsóknir hafa sýnt fylgni á milli aukinnar hreyfingar og námsárangurs. Stundaskrá yngri nemenda er skipulögð þannig að hver skóladagur hefst á hreyfistund, t.d. íþróttum, sundi eða útileikjum. Hreyfistundir eru einnig í daglegu skipulagi eldri nemenda.
Skólinn tekur þátt í ýmsum sameiginlegum hreyfingarverkefnum á landsvísu, svo sem Göngum í skólann og Lífshlaupinu.

Í lífsleiknikennslu í öllum árgöngum er unnið að heilbrigði og velferð nemenda, til dæmis að efla jákvæða sjálfsmynd þeirra og góð samskipti. Mikil áhersla er lögð á góð samskipti heimila og skóla sem almennt stuðlar að velferð nemenda. 

Til baka  

English
Hafðu samband