Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

 

Flataskóli tekur nú sjöunda árið í röð þátt í etwinningverkefninu Schoolovision.  Í fyrra sendum við lagið "Eftir eitt lag" eftir Bergrúnu Írisi og Ástu Björgu og var það lag flutt í söngvakeppni sjónvarpsins 2014. Krakkarnir í 4. bekk komu með þetta framlag í Flatóvision og unnu. Flatóvision er haldin sem undankeppni fyrir Schoolovision ár hvert og þar fá nemendur í 4. til 7. bekk að koma með atriði að eigin vali en þó þurfa þeir að fara eftir reglum keppninnar hverju sinni. Með þessu atriði hlutum við 6. sætið með 96 stig í schoolovision 2014.

Sigurlag Flatóvision að þessu sinni var lagið "Gefðu allt sem þú átt" sem sjöundi bekkur flutti. Lagið er eftir Jón Jónsson.  Í Flatóvision fá nemendur úr 4. til 7. bekk að koma með atriði (lag og dans) sem þau velja sjálf og æfa (með tilliti til reglna sem settar eru hverju sinni). Dómarar að þessu sinni voru Haraldur úr hljómsveitinni "Pollapönkurum" Halla Rósenkranz kennari við skólann, Jóna ritari og tveir fulltrúar úr nemendaráði Garðaskóla og fyrrum nemendur í Flataskóla þau Ragnheiður Sóllilja og Viktor. Jóel nemandi úr 4. bekk spilaði á fiðlu í hléinu og  Peter faðir hans og Jón Bjarni tónmenntakennari léku undir með honum á píanó og gítar á meðan dómarar báru saman ráð sín. 

 

Nánari upplýsingar um þetta verkefni er að finna á bloggsíðum þess frá fyrri árum.

Eins og undanfarin ár hefur verið venja að vera með undankeppni fyrir Schoolovision og er það nefnt Flatóvision  og var það haldið að hætti Eurovision föstudaginn 13. mars 2015, þar sem nemendur í 4. til 7. bekk komu með atriði (söng og dans). Það atriði sem vann var sett á Twinspace svæðið 2015 þar sem hægt er að skoða framlög hinna skólanna í Evrópu.  

-------ooo00ooo-------      ------ooo00ooo-------    --------ooo00ooo--------

Reglur keppninnar í ár eru nánast þær sömu og í fyrra en þær eru:
  1. Aðeins einn skóli frá hverju landi má taka þátt og er Flataskóli fulltrúi Íslands í þessu verkefni.
  2. Velja má söng/dans að eigin vali og það má syngja á hvaða tungumáli sem er. Það má vera þekkt lag, þjóðlag eða lag sem nemendur búa til sjálfir, lag sem enginn hefur heyrt áður. Lagið þarf að tengjast landinu á einhvern hátt. Lag þarf að vera eftir íslenskan höfund. Textinn getur t.d. verið um vináttu, umhverfismennt, frið, fólk o.s.frv. 
  3. Undirleikur má vera leikinn af nemendum, af CD-diski eða af foreldrum/kennurum. 
  4. Enginn hjálparsöngur né bakraddir mega vera í upptökunni. Nemendur verða að syngja allt lagið sjálfir. 
  5. Klæðnaður á sviði skal vera við hæfi 9 til 12 ára barna. 

 

English
Hafðu samband