Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Agamál og viðurlög

Samkvæmt reglugerð nr. 1040/2011 skal hver grunnskóli setja sér skólareglur. Stuðla skal að jákvæðri hegðun og miða að að því að rækta persónuþroska og hæfni nemenda. 

Skólareglur varða allt skólasamfélagið, þ.e. starfsfólk skólans og stjórn hans, nemendur og foreldra. Skólareglur eru settar í samráði við skólaráð og leitast er við að ná sem víðtækastri sátt um þær. Á hverju ári eru skólareglur kynntar nemendum og foreldrum þeirra og þær eru birtar á vef skólans. Umsjónarkennarar fjalla um reglurnar, þýðingu þeirra og hlutverk með nemendum eins oft og þurfa þykir. Í skólareglum er kveðið á um almenna umgengni, samskipti, háttsemi, stundvísi, ástundun náms, hollustu og heilbrigðar lífsvenjur, ábyrgð og skyldur.

Í Flataskóla hafa verið skilgreindir ákveðnir siðir sem allir leggja sig fram um að fara eftir. Siðirnir eru kenndi sérstaklega og gilda ákveðnir siðir á ákveðnum svæðum. Nemendur eru þjálfaðir í að fara eftir siðunum og leiðbeint um rétta hegðun. Eftirfarandi siðatafla er í gildi á öllum svæðum þar sem lögð er áhersla á ábyrgð og virðingu. 

Taflan birtir siði sem Flataskóli leggur áherslu á að kenna börnum í skólastarfinu og lúta að ábyrgð og virðingu.

Áhersla er lögð á að skapa jákvæðan skólabrag og góðan vinnuanda. Allir í skólanum stuðli að góðum starfsanda þar sem öryggi, vellíðan og heilbrigði er í fyrirrúmi. Við í Flataskóla viljum að gagnkvæmt traust, virðing, samábyrgð, tillitssemi og fáguð framkoma sé höfð að leiðarljósi. Námsagi einkennist af því að tillit sé tekið til þarfa nemenda, þroska þeirra og hæfni með áherslu á mannréttindi, jafnrétti, lýðræðisleg vinnubrögð og bann við mismunun af öllu tagi.

Umsjónarkennari ræðir við nemendahópinn sinn um siði og umgengni og gerir hópinn samábyrgan fyrir góðum bekkjaranda og hvetjandi námsumhverfi.

Siðir, bekkjarreglur og reglur árgangsins skulu vera sýnilegar á veggjum í hverju rými. Hver kennari tekur á agamálum hjá sínum nemendum og lætur umsjónarkennara vita af hegðunar¬vanda ef hann telur þörf á því.

Ef upp koma hegðunarvandamál í útivist eða á göngum reynir sá starfsmaður sem kemur að aðstæðunum að leysa vandan á staðnum. Hann ræðir við viðkomandi nemanda/nemendur og lætur umsjónarkennara vita af málinu.

Láti nemandi ekki segjast við áminningu þá lætur kennari foreldra/forráðamenn vita um vandann og óskar eftir að þeir taki þátt í lausn hans.

Ef nemandi fylgir ekki skólareglum er haft samband við foreldra/forráðamenn og unnið sameiginlega að lausn mála. Mikilvægt er að heimili og skóli vinni sameiginlega að lausn mála sem upp koma.

Beri samstarf við foreldra ekki árangur þá kemur kennari deildarstjóra inn í málið ásamt umsjónarkennara og mögulega námsráðgjafa. Náist ekki árangur í meðförum deildarstjóra skal vísa málinu til skólastjórnenda.

Ef engin lausn finnst á málinu þá er því vísað til nemendaverndarráðs, atferlisfræðings og/eða sálfræðings skólans. Slíkt er gert í samráði við skólastjórnendur og með samþykki foreldra. Vinna þarf sérstaklega með nemendur með hegðunarfrávik.

Yfirlit yfir ástundun nemanda er birt á vitnisburðablaði tvisvar á ári og er aðgengilegt á Mentor allt skólaárið.

 

English
Hafðu samband