Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

 

 

 

 

 

 

 

Eitt helsta hlutverk skólaíþrótta er, samkvæmt aðalnámskrá í íþróttum, líkams- og heilsurækt, að stuðla að alhliða þroska hvers nemenda, efla heilsufar hans og afkastagetu. Íþrótta- og hreyfinám hefur ekki aðeins góð áhrif á líkamlega heilsu hvers nemanda, heldur hefur það einnig jákvæð áhrif á andlega og félagslega líðan. Eitt það mikilvægasta, sem hver skóli getur veitt nemendum sínum, er að styrkja sjálfsmynd hans og vellíðan. Slíkt er hægt að gera með markvissum æfingum og leikjum þar sem þroskaþættir eru hafðir að leiðarljósi. Jákvæð upplifun og virk þátttaka í skólaíþróttum getur lagt grunninn að heilsusamlegum lífsstíl og vellíðan hvers nemanda sem hefur áhrif á allt skólastarfið.

Allir nemendur í Flataskóla fá tvo tíma í íþróttum og einn tíma í sundkennslu á viku. Að hausti eru allir bekkir í útikennslu í íþróttum, þannig gengur það fram í byrjun október þá byrjar kennsla inni í íþróttahúsinu Ásgarði. Kennsla fer fram innan dyra í Ásgarði fram til 20. apríl. Dagana 23. apríl – 4. maí er hópnum skipt í tvennt þar sem annar hópurinn er inni fyrri vikuna og hinn úti og svo snýst það við seinni vikuna. Frá og með 7. maí er alfarið kennt úti. Athugið að íþróttakennarar áskila sér rétt til breytinga á áætlun ef þess er þörf.

Í útikennslu verða nemendur aðallega á skólalóðinni og í umhverfi skólans, en einnig munum við nýta okkur Vigdísarlund og svo göngustíga í hverfinu fyrir útihlaup. Mikilvægt er að nemendur mæti í skólann klædd eftir veðri og hafa hentugan skófatnaði meðferðis fyrir útihlaup (hjólaskór eru ekki leyfðir).

Allir nemendur eiga að koma með íþróttaföt. Íþróttafatnaður er t.d. stuttermabolur, stuttbuxur, síðar íþróttabuxur eða fimleikabolur. 1.-3.bekkur má þó klæðast fötunum innan undir skólafötunum. Nemendum í 4.-7.bekk er skylt að hafa íþróttafötin meðferðis, í sér tösku/poka og skipta um fatnað fyrir og eftir íþróttatímann, en ekki klæðast sömu fötum og í skólanum. Ef nemandi gleymir íþróttafötum getur hann ekki tekið þátt í tímanum. 

Æskilegt er að nemendur í 4.-7. bekk mæti með handklæði og fari í sturtu eftir íþróttatíma í Ásgarði, það er þó ekki skylda. Ef nemandi getur ekki tekið þátt í íþróttatíma á að tilkynna forföllin símleiðis, í tölvupósti eða með miða frá forráðamanni. Þeir nemendur sem af einhverri ástæðu geta ekki tekið þátt í íþróttum um lengri tíma, eru beðnir að skila vottorði sem allra fyrst.
Kennsla er mest í formi leikja og æfinga, þar sem lögð er áhersla á að hver og einn finni sig í þátttöku leikja, sem einstaklingur og í hóp. Nemendur fá að kynnast hinum ýmsu íþróttagreinum og grunnþáttum þeirra. Einnig er áhersla lögð á að nemendur taki þátt í mælingum fyrir styrk, þol og liðleika.

Námsmat nemenda í 1.- 7.bekk er veitt með leiðsögn yfir skólaárið. Mat kennara byggist m.a. á áhuga, mætingu, virkni og hegðun nemanda. Lokamat er lagt fram vorið 2018.

English
Hafðu samband