Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Fréttapistill frá janúar og febrúar 2013

08.04.2013
Fréttapistill frá janúar og febrúar 2013Hér kemur fréttapistill 5 ára bekkjar frá því í janúar og febrúar 2013
  • Í byrjun janúar var fyrsta sólarveislan haldin, Nemendurfengu að ráða hvað gert yrði og völdu þeir að hafa búningadag, svo allir mættu í búningum í veisluna. 
  • Spjaldtölvurnar hafa einnig verið á sínum stað og hefur nemendum farið mjög fram í að vinna með þær. Þeir eru einnig mjög duglegir að skiptast á við að vinna með þær. 
  • Farið er reglulega í leiki með bókstafi, leikið með hljóðin, myndunarstað og útlit stafanna, auk þess sem búin voru til orð úr þeim um ýmislegt sem finna mátti í umhverfinu. Til að byrja með var lögð áhersla á stóru stafina en núna er einnig farið að vinna með þá litlu. 
  • Einingakubbarnir voru vel nýttir og hefur nemendum farið mikið fram í byggingalistinni. Nú rísa byggingar sem stækka dag frá degi og þær fá oft að standa í nokkra daga og skapast því skemmtilegur leikur við að byggja meira og bæta við. 
  • Stærðfræðibókin Sproti 1 var tekin í gagnið í janúar og hefur vakið mikla lukku. Í Sprota eru ýmsar þrautir sem nemendur leysa ásamt því að þeir læra grunnhugtök stærðfræðinnar. 
  • Útiveran á líka alltaf sinn stað og eru nemendur duglegir og virkir við að leika sér úti. Þeir klifra, hlaupa, róla sér og vega salt. Þá hafa þeir einnig komist að því að hægt er að nýta vegasaltið til þess að finna jafnvægi . Snjórinn heillaði einnig og var hann vel nýttur í hvert sinn sem hann sást.
  • Í janúar fóru nemendur í tvo tilraunatíma í náttúrufræðistofu skólans. Ólöf skólastjóri leiðbeindi þar. Í fyrri tilrauninni var verið að kanna eiginleika vatns, hvað flýtur og hvað sekkur og af hverju. Börnin komu með tilgátur varðandi ýmsa hluti og að því loknu framkvæmdu þau tilraunina til að komast að hinu sanna. 
  • Í seinni tilrauninni var haldið áfram að vinna með eiginleika vatns. Ólöf byrjaði á því að sýna börnunum leirklump og bað þau um að álykta hvort hann myndi sökkva eða ekki. Tilraunin sýndi að hann sökk. Eftir það fékk hvert barn leirklump sem það átti að breyta í bát, þegar bátarnir voru tilbúnir var þeim varlega komið fyrir í fötu með vatni og öllum til mikillar ánægju þá sökk báturinn ekki. 
  • Í febrúar tóku nemendur þátt í lífshlaupinu og voru þeir duglegir að hreyfa sig í skólanum, farið var í gönguferðir og stundaðar æfingar af kappi. Þá voru þeir einnig mjög duglegir að hreyfa sig heima og í lok febrúar kom í ljós að nemendur Flataskóla voru duglegastir að hreyfa sig af grunnskólunum sem tóku þátt. 
  •  Í febrúar var svo haldið upp á bolludag með því að búa til bolluvendi, sprengidag með því að borða saltkjöt og baunir og öskudag með því að nemendur komu í búningum í skólann. Þar sungu þeir á ýmsum stöðvum eða sögðu skrýtlur og fengu nammi fyrir. Draugahúsið sem sett var sérstaklega upp fyrir öskudaginn var einnig afar spennandi og pínu ógnvekjandi.

    MYNDIR FRÁ JANÚAR OG FEBRÚAR ERU Í MYNDASAFNI SKÓLANS                    

Þóra Dögg deildarstjóri 5 ára bekkjar

Til baka
English
Hafðu samband