Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Endurskoðun menntastefnu - samráð við íbúa

02.02.2022
Endurskoðun menntastefnu - samráð við íbúa

Nú er í gangi endurskoðun á gildandi skólastefnu Garðabæjar sem ætlað er að móta í víðtæku samráði við starfsfólk skólanna, börn í leik-, grunn- og tónlistarskólum, kjörna fulltrúa, starfsfólk og bæjarbúa.

Menntastefna Garðabæjar 2022-2030 tekur mið af þeim fjölmörgu lagabálkum og stefnum sem gilda um og taka til skólastarfs og tengdrar þjónustu, aðalnámskrám grunn- og leikskóla og verkefnum sem unnið er að og tengjast menntastefnu.

Farsælt og framsækið skólastarf

Menntastefnunni er ætlað að leggja grunn að farsælu og framsæknu skólastarfi sem einkennist af jákvæðum skólabrag og veitir öllum börnum menntun og færni til mæta þeim áskorunum sem felast í hröðum og stöðugum samfélags- og tæknibreytingum.

Garðabær er aðili að Heilsueflandi samfélagi þar sem unnið er að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa og verið er að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla stjórnsýslu og starfsemi í gegnum verkefnið Barnvæn sveitarfélög. Þá er leitast við að láta alla stefnumótun taka mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Markmiðin eru samofin og samverkandi en mikil tenging er við menntastefnu, þá sérstaklega markmið um menntun fyrir alla, markmið um heilsu og vellíðan.

Hafðu áhrif!

Menntastefna Garðabæjar er nú í umsagnarferli á samráðsgátt. Íbúar, foreldrar, starfsfólk skóla, börn, unglingar og aðrir áhugasamir eru hvattir til að senda inn ábendingu varðandi hver leiðarljós menntastefnunnar skulu vera. Samráðsgáttin er opin til 13. febrúar nk.

Hér er hægt að fara inn á samráðsgátt um menntastefnuna.

Til baka
English
Hafðu samband