Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Flatóvisionhátíðin 2016

14.03.2016
Flatóvisionhátíðin 2016

Hópurinn úr sjöunda bekk varð sigursælastur á föstudaginn í Flatóvision 2016. Nemendur fluttu lagið "Dönsum burtu blús" og sömdu jafnframt dans- og fimleikaatriði sem sýnt var við flutning á laginu. Lag og texti er eftir meðlimi hljómsveitarinnar StopWaitGo og er þetta lag úr söngvakeppni sjónvarpsins fyrir nokkrum árum.

Hátíðin fór vel fram en sjö afar frambærileg atriði voru á dagskrá hvert öðru flottara og voru tæplega 90 nemendur sem stigu á sviðið að þessu sinni. Þetta er áttunda árið sem nemendur skólans vinna svona verkefni, en það er gert til að velja framlag í eTwinningverkefnið Schoolovision. Tvö atriði komu frá 4., 5. og 6. bekk og eitt frá 7. bekk. Dómarar að þessu sinni voru tveir starfsmenn skólans þær Jóna og Svanhvít, tveir fyrrum nemendur úr Flataskóla sem eru núna í Garðaskóla þau Elín og Viktor og leikkonan Þórunn Erna Clausen og Alda Dís Arnardóttir söngkona.

Fjöldi aðstandenda mætti til að taka þátt í hátíðinni með börnum sínum og var ótrúlegt hve salurinn rúmaði vel allan þennan fjölda, en opnað var inn í matsalinn og þar var raðað stólum fyrir gestina. Nemendur í yngstu bekkjunum sátu fremst á gólfinu allan tímann og til að liðka þá þegar búið var að kynna öll atriðin sáu fjórar stúlkur í 6. bekk um smájógastund fyrir hópinn á meðan dómarar réðu ráðum sínum.

Eftir páska verður hafist handa við að útbúa myndband til að senda á bloggsíðu Schoolovision verkefnisins og síðan verður lokahátiðin  þar sem kosið verður um besta framlagið 13. maí eða daginn fyrir alvöru Eurovison hátíðina. Myndir er að finna í myndasafni skólans.

                        

Til baka
English
Hafðu samband