Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Annríkur dagur og páskaleyfi

21.03.2013
Annríkur dagur og páskaleyfi

Í dag fimmtudag var mikið um að vera í skólanum. Stjörnutjaldið hans Snævarrs var sett upp í hátíðarsal skólans og tók Snævarr á móti nokkrum hópum nemenda í morgun og sagði þeim frá ýmsu sem tengist himingeimnum. Finnst nemendum þetta afar spennandi og fróðlegt en þeir hafa einmitt verið að læra um þetta efni undanfarið og kemur þessi heimsókn í kjölfarið á því. 

Foreldrakaffi var hjá 3. bekk í morgun þar sem nemendur sýndu afrakstur vinnu sinnar í tengslum við sólkerfisverkefnið.

Þá földu foreldrar páskaegg hér og þar um skólann sem nemendur leituðu síðan að og hefur þetta verið árleg hefð undanfarin ár. Nemendum þykir þetta ekki leiðinlegt.

Páskaungar komu að venju í hitakassann sinn á mánudaginn og eru 2. bekkingar önnum kafnir við að fylgjast með vexti og framförum unganna.  Þeir heimsækja þá daglega og mæla og vikta og sjá hvernig þeir dafna og er óhætt að segja að þeir braggist vel hjá okkur. 

Í tilefni komandi sumars voru tilmæli frá stjórn starfsmannafélagsins að starfsmenn kæddust fötum í sumarlegum litum í dag og var afar glaðlegur blær yfir fólkinu. Það er alltaf skemmtilegt að bregða út af venjunni og gera eitthvað öðruvísi en venjulega.

Framundan er svo páskaleyfið sem hefst á mánudaginn 25. mars og stendur til og með 1. apríl sem er annar í páskum. Nemendur mæta síðan þriðjudaginn 2. apríl samkvæmt stundaskrá.


Stjórnendur og starfsmenn Flataskóla óska nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegra páska.

Nýjar myndir eru í myndasafni skólans af atburðum dagsins.


Stjörnutjaldið

Til baka
English
Hafðu samband