Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Skólaþing eldri deilda

01.03.2013
Skólaþing eldri deilda

Fimmti og sjötti bekkur héldu skólaþing í gær. Skólastjórnendur og kennarar sátu þingið með þeim og er þetta í þriðja sinn á vetrinum sem þing er haldið með þessum nemendum. Margt bar á góma og það fyrsta sem rætt var um var morgunsamveran. Nemendum fannst lögin sem sungin eru þar of barnaleg og vildu fá meira úrval og syngja líka einhver popplög. Voru nemendur beðnir að skrá niður lög sem þeir hugsað sér að syngja og afhenda Jóni Bjarna tónmenntakennara. Einnig vildu nemendur koma til móts við yngri nemendur og komu með þá hugmynd að sungið yrði eitt lag valið af yngri nemendum og annað valið af eldri hverju sinni. 

Þá var rætt um fimleikahúsið. Nemendur kvörtuðu yfir að það væri annar skóli samtímis þeim í salnum. Þetta mál verður athugað af stjórnendum.

Leiktæki á skólalóðinni voru síðan tekin til umræðu. Nemendur hafa áhuga á að fá ný leiktæki. Ýmsar hugmyndir komu upp og mikið var rætt um hættur sem tengjast leiktækjum. Ákveðið var að nemendur fengju það verkefni að taka myndir eða finna á netinu dæmi um slík tæki svo stjórnendur gætu betur áttað sig á hverskonar tæki nemendur eru að benda á.

Þingið þótti takast vel og nemendur eru að átta sig á því hvernig þetta virkar og eru duglegir að koma með ábendingar og hugmyndir um ýmislegt sem þeir vilja hafa áhrif á.

Til baka
English
Hafðu samband