Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Alþjóðlegur dagur gegn einelti er 8. nóvember

08.11.2012
Alþjóðlegur dagur gegn einelti er 8. nóvember

Í dag 8. nóvember er haldinn í annað sinn sérstakur baráttudagur gegn einelti hér á landi þar sem þjóðin er hvött til að standa saman gegn einelti í samfélaginu, ekki síst í skólum og á vinnustöðum. Allir eru hvattir til að leggja sitt af mörkum til að einelti fái ekki þrifist í samfélaginu og skólar, samtök og vinnustaðir eru hvattir til að beina sjónum að jákvæðum samskiptum, jákvæðum skólabrag og starfsanda.

Í tengslum við daginn eru allir hvattir til að skrifa undir þjóðarsáttmála gegn einelti, sem er aðgengilegur á heimasíðunni www.gegneinelti.is. Með undirritun sinni skuldbindur fólk sig til að vinna gegn einelti og markmiðið er að fá sem allra flesta til að skrifa undir sáttmálann.

Við í Flataskóla tökum þátt í þessum aðgerðum með ýmsum hætti. Nemendur og starfsfólk horfðu saman á myndbandið sem kvennalandsliðið í fótbolta stóð að, unnið var með textann og málið rætt í öllum bekkjum. Allir nemendur settu ýmis slagorð tengd átakinu á veggspjöld.

Veggspjöldin munu hanga uppi í anddyri Ásgarðs íþróttahúsi Garðabæjar, á Garðatorgi og í skólanum. Þó að þessi dagur sé sérstaklega tileinkaður baráttunni gegn einelti er auðvitað unnið markvisst gegn einelti allt skólaárið.

Allir nemendur og starfsmenn fengu afhent gul armbönd sem verkefnisstjórn aðgerða gegn einelti  stóð fyrir að gerð  væru í tilefni dagsins og bera yfirskriftina: Jákvæð samskipti.

Til baka
English
Hafðu samband