Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Bókaormaeldi

01.04.2009
BókaormaeldiÍ Flataskóla er ýmislegt gert til þess að vekja áhuga nemenda á lestri bóka sér til skemmtunar. Laugardaginn 21. mars var haldin ráðstefna um barna- og unglingabókmenntir í Gerðubergi sem bar heitið „Bókaormaeldi“. Ráðstefnan var einkar vel sótt eða alls um 140 manns sem tóku þátt í henni. Margir fengu þar góðar hugmyndir að skemmtilegum verkefnum sem hægt er að nýta til að vekja áhuga barna á lestri. Meginþema ráðstefnunnar var lestur barna og unglinga og hvernig við glæðum áhuga þeirra á lestri. Ingibjörg Baldursdóttir, bókasafnsfræðingur Flataskóla flutti erindi um ýmis verkefni sem skólinn stendur fyrir til að hvetja nemendur til aukins lesturs. Í erindi sínu gerði Ingibjörg m.a. grein fyrir því að lestrarátök eru haldin í 3.-7. bekk á hverju hausti í Flataskóla. Reynslan sýnir að það hefur gefist einstaklega vel að byrja veturinn með lestrarátaki því nemendur halda gjarnan áfram að lesa af miklum móð í langan tíma eftir að átaki lýkur. Í febrúar s.l. tók 1.- 4. bekkur þátt í lestrarverkefninu ,,Lesum saman-verum saman" en fyrirmyndin að því verkefni er fengin frá Snælandsskóla í Kópavogi, þar sem verkefnið hefur verið unnið í mörg ár. Lestrarmaraþon hefur verið haldið síðastliðin fjögur ár með 7. bekkjum en þá gista nemendur á skólasafninu og lesa eins mikið og mögulegt er. Rithöfundar koma reglulega á skólasafnið og kveikja áhuga nemenda með upplestri og umræðum um bækur sínar. Nemendur í 7. bekk hafa einnig staðið fyrir kynningu á skemmtilegum bókum fyrir yngri nemendur og hafði það lestrarhvetjandi áhrif. Hér í Flataskóla vonumst við til að lestraráhugi nemenda okkar haldi áfram að aukast því lestur er íþrótt hugans.
Til baka
English
Hafðu samband